149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að það er mikilvægt að ef sú leið yrði farin að það ætti að svipta menn þessum réttindum einhvern tímann verður að sjálfsögðu að vera hægt að sýna fram á að einhver lög og reglur hafa verið brotin. Það er ekki hægt að gera það út frá neinu öðru, held ég.

Ég held að ástæðan fyrir því að aðilar komi aftur og aftur og geti lifað í skamman tíma í þessu dæmi sem ég tók áðan sé fyrst og fremst sú að þeir sem kaupa þjónustu eða vörur af slíkum aðilum horfa kannski fyrst og fremst í sína eigin buddu. Mönnum er mögulega sama ef þeir fá það sem þeir eru að kaupa á lægra verði þó að þeir viti að viðkomandi hafi ekki alveg hreint mjöl í pokahorninu frá fyrri tíð vegna þess að það skiptir þá máli að geta keypt eitthvað á 1.000 kr. í staðinn fyrir 1.500 kr. Það er erfitt að höfða til þess að markaðurinn leiðrétti sig að þessu leyti, en klárlega ef einhver verður svikinn í viðskiptum við einhvern aðila hefði ég haldið að það myndi leiðrétta sig sjálfkrafa og ekki síst í landi eins og Íslandi þar sem allir þekkja alla og það er mjög auðvelt að vita sögu fólks og fyrirtækja eins og við þekkjum.

Að lokum tek ég bara undir með hv. þingmanni varðandi mikilvægi þess að það sé samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Ríkisútvarpið er risaeðla sem þarf að leggja niður og hætta með, í það minnsta í þeirri mynd sem það er í í dag. Eins er óeðlilegt að einkaaðilum í heilbrigðisþjónustu finnist að sér vegið þessa stundina. Það er ekki gott heldur því að það eigum við að geta nýtt til þess að skapa okkur enn þá betra heilbrigðiskerfi.