149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[16:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum í öllum aðalatriðum sammála. Við erum sammála um að þetta er vandasamt og við erum með nokkrar undantekningar. Ég hefði haldið að í svona litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla og menn hafa einhvern feril sé auðvitað að þeir aðrir sem eru í viðskiptum, eru ekki birgjar eða eitthvað annað, lána þeim ekki vörur nema gegn einhvers konar tryggingum. Þetta leiðir til þess að einhverju leyti sjálfkrafa en það er jafn óþolandi þó að menn lifi stutt að geta með einhverjum sviksamlegum hætti skaðað heilbrigt viðskiptalíf. Ef ég get smíðað eitthvert ákvæði um að þessi háttsemi við reksturinn hafi skaðað heilbrigða samkeppni og heilbrigt viðskiptalíf segi ég: Já, þú ert búinn að brjóta það ákvæði og þá get ég sett þig í einhvers konar atvinnurekstrarbann. Ég þarf bara að smíða þetta. Ég get ekki samþykkt svona hlutlæga reglu um einhvern sem hefur verið tengdur félögum, stofnað þau, átt í þeim eða rekið félag sem hefur farið tvisvar eða þrisvar sinnum á hausinn og megi þar af leiðandi ekki vera í atvinnurekstri. Slík hlutlæg ábyrgð er mér ekki að skapi. Það er bara það sem ég er að segja. Ég heyri oft í umræðunni og maður hefur oft heyrt það í gegnum tíðina að margir líti svo á að gjaldþrot sé einhvers konar refsiverð háttsemi per se en algjör forsenda efnahagsuppgangs, tækifæra og að menn taki áhættu er að hafa félög með takmarkaðri ábyrgð.