149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[17:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir hans prýðisgóða innlegg. Það er auðvitað ekki á hverjum degi sem við njótum þekkingar úr smiðju fyrrverandi skiptastjóra í fjölmörgum skiptabúum sem er þakkarvert í sjálfu sér. Ég get tekið undir langmest af því sem hv. þingmaður kom að í sinni ræðu. Auðvitað er viðkvæmt að segja sem svo að maður sem fer í gjaldþrot sé einhvers konar þrjótur. Það er viðkvæmt og ég held að ég hafi alveg komið að því í minni ræðu að þetta væri alls ekki einfaldur hlutur. Atvinnufrelsi er að sjálfsögðu stjórnarskrárvarið. Sú leið sem hér er lögð til er mjög seinvirk. Hv. þingmaður taldi það vera vegna þess að kannski væri kerfið bara ekki nógu skilvirkt, það vantaði mannskap eða þyrfti að efla rannsóknir. Það er alveg hárrétt líka. Þess vegna ætlaði ég í fyrri spurningu minni að bera það undir hv. þingmann hvernig menn fara að þessu í nágrannalöndunum, þ.e. á hinum Norðurlöndunum. Það kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu að annars staðar eins og í Svíþjóð er gjaldþrot félags ekki skilyrði fyrir því að atvinnurekstrarbann komi til álita og þannig er hægt að grípa fyrr til aðgerða. Í Danmörku og Noregi kemur atvinnurekstrarbann eingöngu til álita þegar um gjaldþrot félags er að ræða.

Ég er búinn með minn andsvarstíma en þarna er gert ráð fyrir að skiptastjórinn fari beint fyrir héraðsdóm og að héraðsdómur leggi á atvinnurekstrarbann.