149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[17:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki alveg einfalt. Menn hafa verið að skoða hvernig þetta er í nágrannalöndunum og eiga erfitt með að setja sig inn í það. Auðvitað eru skiptastjórar lykilatriði til að rannsaka hvort hér hafi verið einhver óeðlileg starfsemi í þessum viðskiptum sem þá samræmist ekki hlutafélagalögum með einhverjum lögum um fyrirtækjarekstur o.s.frv.

Danir hafa verið að vandræðast með þetta mjög lengi. Ég hef skilið þetta þannig að menn hafi alltaf litið svo á að það þurfi að skoða að einhvers konar brot hafi verið framin eða farið á svig við lög áður en menn grípa til atvinnurekstrarbanns, ekki bara hlutlægt að hafa átt félag sem fór í gjaldþrot eða verið í stjórn þar, framkvæmdastjórn eða eitthvað slíkt. Það er bara það sem ég er að vara menn við, að hafa hlutlæga reglu sem snýr að fjölda gjaldþrota á ákveðnum tíma. Það segir mér ekkert.

Ég hef alltaf verið þannig maður að ég dáist að fólki sem hefur þá dýnamík og er tilbúið að taka áhættu til að skapa verðmæti og ég vil ekki refsa því ef illa fer í einhverjum tilvikum. Það er bara hluti af því frjálsa samfélagi sem við lifum í. Ef menn fara ekki að reglum og fara á svig við þær, og kannski getum við búið til einhverjar reglur líka til þess að bæta enn umhverfið, er engin miskunn hjá Magnúsi þegar ég er annars vegar. Ég get orðið mjög úrillur þegar ég sé eitthvert slíkt og var mjög úrillur skiptastjóri þegar ég sá eitthvað slíkt.