149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[17:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann segist hafa verið úrillur. Það er bara ekki nóg að vera úrillur. Við verðum að hafa einhver úrræði til að sporna við þessu. Ég vann lengi nálægt svona hlutum og varð margoft var við þetta eins og hv. þingmaður sjálfur. Við verðum að finna einhver úrræði. Það úrræði sem hér er lagt til, svo gott sem það er og eins langt og það nær, er mjög seinvirkt og hv. þingmaður veit það. Hann veit að við þurfum að finna eitthvað hraðvirkara og hann nefndi að hann væri tilbúinn að sitja í slíkri nefnd sem færi yfir þetta. Ég tek undir með honum og er líka tilbúinn til þess. Ég hef kannski reynslu annars staðar frá en hv. þingmaður, kannski hinum megin frá. Þetta er óviðunandi út frá samkeppni.

Við verðum að passa okkur á því að hefta ekki nýsköpun í atvinnurekstri, ég tek undir með hv. þingmanni þar. Sú leið sem er farin á Norðurlöndum, sýnist mér af því að lesa hér ágrip í greinargerðinni, er þannig að í flestum þessum löndum fer skiptastjóri með þegar félag er tekið til gjaldþrotaskipta, þegar rökstuddur grunur er, fyrir annaðhvort sérstakan gjaldþrotadómstól eins og í Noregi eða bara fyrir dómstólinn sem úrskurðar um gjaldþrotið eftir að hafa skoðað gögnin og setur á atvinnurekstrarbann. Það virðist vera mjög hraðvirk leið. Dómstóllinn tekur auðvitað rökstudda ákvörðun í því sambandi og ég held að við ættum að skoða slíka leið miklu betur og leitast við það samkeppninnar vegna. Eins og hv. þingmaður kom að er samkeppnin aflvaki framfara. Ég tek undir það og auðvitað eigum við ekki að hefta atvinnufrelsið.