149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[17:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur reynst þeim þingmanni sem hér stendur afskaplega vel að vera frekar úrillur. En það er rétt að við þurfum að hafa úrræði og helst hraðvirk. Ég get alveg, án þess að vera búinn að hugsa það til enda, séð einhvers konar úrræði við gjaldþrot að skiptastjóri meti hvort einhvers staðar hafi ekki verið farið að reglum sem er það alvarlegt að það sé rétt að menn hafi ekki heimild til atvinnurekstrar í félagi með takmarkaðri ábyrgð og þá sé bara farið með það beint fyrir dóm. Það getur verið hluti af þessu. Mér finnst allt í lagi að skoða það. Það sem ég er bara að segja, hv. þingmaður, er að ég vil ekki hafa einhverja hlutlæga ábyrgð af því að félög hafi farið í gjaldþrot og enginn haldið því fram að brot hafi verið framin í þeim rekstri en bara af því að það hafi verið gjaldþrotaúrskurður sé atvinnurekstrarbann. Ég er ekki þar, það er bara það sem ég er að segja. Umræðan er oft þannig.

Ég sé fyrir mér að skiptastjóri fari yfir málið. Var eitthvað óeðlilegt? Var farið gegn samkeppnislögum? Voru félagsleg undirboð augljós eða eitthvað slíkt? Þá er það bara brot og við slíkar aðstæður, ég tala nú ekki um ef það er alvarlegt, á að vera hægt að svipta menn heimild til að stunda atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð. Menn verða líka að geta treyst öðrum. Traust skiptir svo miklu máli í viðskiptum. Þegar menn misnota það traust, eru óheiðarlegir, segja ekki satt eða brjóta með einhverjum hætti þannig af sér að þetta ruglar allt kerfið eiga menn (Forseti hringir.) að bera ábyrgð. Það eiga allir að bera ábyrgð ef þeir gera eitthvað rangt.