149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

störf þingsins.

[10:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær var afgreitt til velferðarnefndar mál hæstv. félags- og barnamálaráðherra um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar. Hér er á ferðinni skref í átt til mikilla réttarbóta fyrir öryrkja. Markmiðið er að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri fyrir framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og afnema þar með það sem kallað er í daglegu tali króna á móti krónu skerðing.

Undanfarin ár hefur öryrkjum fjölgað og eru margar ástæður sem liggja þar að baki. Í vetur lagði ég fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna. Við þurfum að leggja eyrun við þeim þögla sjúkdómi og viðurkenna hann sem stóran þátt í að fólk á öllum aldri dettur út af vinnumarkaði og einangrast heima með verkjasjúkdóma sem gera einstaklinginn óvirkan, bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Í einni auglýsingu segir að það sjáist hverjir drekka Kristal. Þeir sem eru með vefjagigt bera það ekki utan á sér. Þessi þingsályktunartillaga fær sennilega bíða úrlausnar á næsta þingi en vonandi nær hún þá í gegn. Það virðast vera stærri og mikilvægari mál, virðulegi forseti, sem þurfa að taka tíma hér á Alþingi, t.d. þurfa sumir þingmenn tíma til að upplýsa þjóðina um hvaða vá liggur fyrir henni ef Alþingi samþykkir að byggja undir sjálfstæði Orkustofnunar. Það sér ekki fyrir endann á þeirri ógn.

Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal en vonandi ber ég með mér fyrir hvað ég stend. [Hlátur í þingsal.]