149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

störf þingsins.

[10:13]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Meðal margvíslegra hæfileika sem formaður Miðflokksins er búinn er ótvíræð skáldgáfa. Hann birtir stundum litlar sögur, nokkurs konar satírur, sem þjóna þeim tilgangi að láta okkur sjá samtímaviðburði í nýju ljósi.

Þannig fékk hann þá skemmtilegu hugmynd um daginn að ímynda sér þorskastríðin í núverandi pólitísku andrúmslofti og þá ímyndar hann sér náttúrlega alls konar vífilengjur hjá alþjóðasinnuðum pólitískum andstæðingum sínum, þar á meðal athyglisjúkum rithöfundi með pólitískan metnað.

Ég las sem sé þá sögu og mér þótti skáldinu takast vel upp. En þó vöknuðu hjá mér önnur hugrenningatengsl en hjá skáldinu, eins og vill henda þegar um margræðan skáldskap er að ræða, og ég vona að skáldið misvirði það ekki við mig.

Þorskastríðin snerust annars vegar um skýlaus yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og hins vegar um aðgang að erlendum mörkuðum með þær vörur sem við sköpum úr þeim auðlindum. Yfirráðin eigum við reyndar enn eftir að tryggja með auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, sem ég vænti að formaður Miðflokksins styðji nú með ráðum og dáð.

Hitt er svo aftur snúnara, því að ég sé ekki betur en að helsta baráttumál stjórnmálamannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé að koma í veg fyrir það, með öllum ráðum, að íslensk orka geti nokkru sinni orðið að söluvöru á evrópskri grund, sem væri þá sambærilegt við það að hafa barist gegn því með ráðum og dáð að íslenskur fiskur yrði seldur í útlöndum, enda eigi útlendingar ekkert með að borða okkar fisk sem við eigum ein heldur eigi að selja íslenskan fisk útlenskum stórkaupendum á lægsta hugsanlega verði. [Hlátur í þingsal. ]