149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil fyrst geta þeirrar heimildar sem ég studdist við í ræðu minni og það er grein eftir Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sem birtist á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar 28. maí. Ég vitnaði til greinarinnar þar sem hann talar um prinsippin í þessu máli, eins og hann kemst að orði, og segir að með þeim sé í raun verið að viðurkenna þau prinsipp sem full aðild að Evrópusambandinu er reist á. Meðal þeirra prinsippa sem ég geri ráð fyrir að sé átt við þarna er að í máli eins og þessu er í raun og sanni verið að fara fram á að í stað þess að menn geri gagnkvæma samninga um aðgang að markaði þá stöndum við frammi fyrir því að gegn aðgangi að hinum evrópska markaði Evrópusambandsins teflum við fram aðgangi að auðlindum.

Að því er vikið í umsögn sem liggur fyrir í málinu og er frá Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem menn vita hversu mikla aðkomu hafði að því að Íslendingar gerðust aðilar að þessu samstarfi. Hann segir þar að ekki hafi komið til greina að fyrir aðgang að markaði kæmi aðgangur að auðlindum. Núna virðist vera uppi sú stefnubreyting. Núna virðist vera að ekki þyki við hæfi að þjóð eins og við sem erum ekki aðildarþjóð heldur aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu leiti eftir undanþágum, með það að markmiði að gæta hagsmuna okkar, frá gerðum sem (Forseti hringir.) við teljum mikilvægar og snerta þjóðarhagsmuni okkar og liggja utan við eðli þess samstarfs sem þarna er um að tefla. Þetta eru (Forseti hringir.) mjög þýðingarmiklir þættir, herra forseti.