149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum aftur. Öll umræða um þetta mál af hálfu stjórnarliða virðist bera það með sér að hið lögfræðilega álit Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts hafi verið þeim nokkurt áfall vegna þess hvað það er skýrt orðað. Á bls. 35 í kafla 4.4., Niðurstaða um framsal ríkisvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi …“ —

Herra forseti, ég leyfi mér að endurtaka:

„… verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. “

Þetta er ekki á eina staðnum sem talað er um verulegan vafa, það er gert á öðrum stað og sömuleiðis í niðurlagskafla álitsgerðarinnar. Hinn lagalegi fyrirvari virðist vera sprottinn af þessu. Honum er ætlað að koma til móts við þetta. Honum er ætlað að upphefja þau áhrif. Þegar um hann er spurt, herra forseti, hafa ekki fengist skýr svör. Svörin hafa verið mörg.

Við vorum komnir upp í það að telja undir forystu okkar ágæta hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, sem hefur lögreglureynslu, upp í fimm og svo bættust við hinir tveir frá hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur og ég er ekki viss um að þá sé allt talið. En ég verð að viðurkenna að það er enn óljóst hver hinn eiginlegi lagalegi fyrirvari (Forseti hringir.) er og á hverju er að byggja í því sambandi.