149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vilja ræða þetta mál á svona háu plani eins og eins og hann gerir. Ég þekki til þessa máls sem hann nefnir. Það var 2016. Ég hef gert mér far um að kynna mér þær lögfræðilegu álitsgerðir sem gerðar voru í tengslum við það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þarna kann að hafa verið teflt alveg á tæpasta vað í því dæmi sem hv. þingmaður nefnir.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, eins og kemur fram hjá Stefáni Má og Friðrik Árna, að eitt er að tala um eftirlit með stofnunum á fjármálamarkaði sem starfa að verulegu leyti í alþjóðlegu umhverfi og hitt að hér erum við að tala hér um varnaðarorð sem liggja á 43 eða 44 blaðsíðum um að verið sé að veita erlendum aðilum a.m.k. óbein áhrif á orkuauðlindir þjóðarinnar. Talað er um skipulag, talað er um ráðstöfun og talað er um nýtingu í því sambandi. Ég tel að þetta sé ekki alveg fyllilega sambærilegt.

Ég tel að það vegi þyngra, herra forseti, þegar við erum að tala um auðlindir en þegar við erum að tala um eftirlit með fjármálastofnunum hér sem starfa í alþjóðlegu umhverfi.

Spurning hv. þingmanns á fullan rétt á sér. Hún er mjög góð og ég er mjög ánægður að hafa fengið tækifæri til að svara henni með þessum hætti.

Ég ætla sömuleiðis að nota þetta tækifæri og vekja athygli á því að höfundarnir tveir, Stefán Már og Friðrik Árni, skrifa viðbótarkafla, sem þeir skrifa greinilega eftir samskipti við utanríkisráðuneytið eftir að þeir höfðu lagt fram drög að álitsgerð sinni. Þar ræða þeir sérstaklega um hvaða svigrúm Alþingi hefur til þess að túlka stjórnarskrána. Niðurstaða þeirra er þessi, herra forseti, með leyfi forseta:

„Löggjafinn ætti því að stíga varlega til jarðar í þessum efnum.“

Þetta eru áminningarorð þessara ágætu höfunda og ég tel að við hljótum að (Forseti hringir.) hugleiða þau vandlega.