149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það sem við höfum saknað einna mest sem höfum staðið hér fyrir nokkrum umræðum um þetta mál er að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki séð sér fært að koma hingað og taka þátt í umræðunum. Það varð smá breyting á því fyrir nokkrum dögum síðan, reyndar á röngum vettvangi, eins og maður segir, þegar hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Haraldsdóttir, kom upp í pontu undir dagskrárliðnum Störf þingsins og ræddi þetta mál.

Dagskrárliðurinn Störf þingsins er eins og allir vita þannig vaxinn að ekki er hægt að bregðast við ræðum nema um það sé samið fyrir fram og mér vitanlega samdi sá hv. þingmaður ekki við neinn um að taka þátt í umræðunni með henni. Þá neyðist maður til að fara yfir ræðuna í ræðum hér og auðvitað er mælendaskrá opin þannig að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir getur komið og bæði veitt andsvör og haldið ræður sem svara því sem ég gæti haldið fram um þetta.

Hún sagði sem sagt efnislega í ræðu sinni að að hennar viti hefði fullt af rangfærslum verið haldið fram í umræðunni. Hún sagði m.a., með leyfi forseta:

„Það er t.d. alveg á hreinu að sú leið sem lögð er til hér við afgreiðslu þriðja orkupakkans stenst stjórnarskrá. Það var margfarið yfir það í hv. utanríkismálanefnd og öllum ber saman um að svo sé.“

Það er nefnilega hreint ekki svo, herra forseti, vegna þess að fjölmargir aðilar hafa komið fram og sagt að þetta mál sé með þeim hætti að það standist ekki íslensku stjórnarskrána og/eða til vara að það þenji hana alla vega alveg til hins ýtrasta.

Síðan segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Sæstrengur kom líka mjög oft til umræðu hjá okkur í hv. utanríkismálanefnd. Og eins og einn lögfræðingur sem heimsótti okkur, Skúli Magnússon, sagði þá eru það lögfræðilegir loftfimleikar að halda því fram að þriðji orkupakkinn leiði til þess að hægt verði að skylda íslenska ríkið til að leggja sæstreng. Ef menn telja sig geta knúið íslenska ríkið til að tengjast rafmagnsstreng þá hefur sú hætta verið fyrir hendi í 25 ár og þriðji orkupakkinn breytir engu þar um.“

Við þau orð setur mann eiginlega hljóðan en þetta er hins vegar mjög í líkingu við það sem umræða þessa máls hefur verið að því litla leyti sem stjórnarliðar hafa tjáð sig um málið. Þeir hafa handvalið sérfræðinga hverra álit hafa fallið af málflutningi þeirra. Það er nefnilega málið að það hefur enginn rætt um það að íslenska ríkið leggi sæstreng, ekki nokkur maður svo ég hafi heyrt um. Það hefur hins vegar verið alveg klárt og kom til að mynda fram undir lok síðustu viku, ef ég man rétt, og er einmitt eitt af því sem hefur komið fram eftir að við fórum að ræða þetta mál djúpt í þessari umræðu, að það er erlent fyrirtæki, enskt fyrirtæki sem heitir Atlantic SuperConnections ef ég man rétt, afsakið, herra forseti, en það er ekki íslenskt nafn á heimasíðu fyrirtækisins, sem hefur nú þegar tryggt fjármögnun á sæstreng frá Bretlandi til Íslands.

Þetta fyrirtæki segist á heimasíðu sinni þegar hafa verið í samræðum við núverandi stjórnarmeirihluta, þ.e. ráðherra núverandi stjórnarmeirihluta, og það sé þverpólitískur vilji fyrir því að þetta verði gert. Og nota bene hafa þeir umboðsmanninn á Íslandi sem er einn gamall og gróinn Sjálfstæðismaður og í miðstjórn eða hefur tekið þátt í stofnunum flokksins. Þessir ágætu menn segja sem sagt á heimasíðu sinni að þeir séu í góðu talsambandi við ráðherra frá öllum stjórnarflokkum á Íslandi um þetta mál, þ.e. að leggja sæstreng hingað frá Bretlandi. Íslenska ríkið kemur ekkert að því vegna þess að strengurinn er fullfjármagnaður og hann er ekki fjármagnaður af neinum aukvisum, hann er fjármagnaður af stærstu bankastofnunum heimsins.

Ég kemst ekki lengra, herra forseti, og þarf að koma mér aftur á mælendaskrá vegna þess að ég er ekki búin að svara öllum þeim rangfærslum sem fram komu í þeirri téðu ræðu sem ég var að vitna til.