149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg ljóst í mínum huga og okkar allra sem höfum staðið í þessu að málið, eins og það er lagt upp hér, er alveg á mörkunum að fara í bága við stjórnarskrána og jafnvel brjóta hana og fyrir því eru fleiri en ein ástæða.

Skammtímaminni undirritaðs er þannig að ég man ekki eftir þeirri ályktun sem þingmaðurinn vísaði til og mun ég að sjálfsögðu fara ofan í hana, þ.e. þegar hún var gerð og hvar hún var gerð á sínum tíma.

Hv. þingmaður segir að hann hafi verið hræddur en sé það ekki lengur. Við erum alveg jafn hrædd og í upphafi.

Í sjálfu sér hafa komið fram, að okkar dómi, upplýsingar meðan á umræðunni stóð um mál sem við vissum ekki þegar við jafnvel fórum í umræðuna á sínum tíma, sem hafa enn undirbyggt það að þetta mál sé með þeim hætti (Forseti hringir.) að það eigi og beri að senda það í heilu til sameiginlegu EES-nefndarinnar (Forseti hringir.) til að það hljóti þar umfjöllun samkvæmt 22. gr. þess samnings.