149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og tek undir það með honum að það er fögnuður að því að menn komi hér annars staðar að með málefnalegar fyrirspurnir um þetta mál.

Þessi umræða hófst fyrir rúmum hálfum mánuði síðan, og eftir því sem hún dýpkaði og eftir því sem fleiri álit og umsagnir komu fram hefur málið tekið á sig nýja mynd og alvarlegri.

Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir, að nú, þegar fjórði orkupakkinn er kominn í ljós opinberlega — því að hann hafði ekki verið afhentur til opinberrar dreifingar, einhverjir hagsmunaaðilar voru reyndar búnir að fá hann sendan en ekki t.d. alþingismenn og ég veit ekki til þess að enn sé búið að gera það. En það er full ástæða til að fara yfir samhengi hans við þann þriðja, að sjálfsögðu, og hvaða skyldur hann leggur á herðar okkur. Við höfum ítrekað farið yfir það í þessari umræðu að ef við hefðum vitað það sem við vitum nú er ég ekki viss um að fyrsti og annar orkupakkinn hefðu farið í gegnum Alþingi eins og þeir gerðu á sínum tíma, þeir fóru báðir í gegn án að því er virðist nokkurrar umræðu. Þeir fóru í gegn algerlega gagnrýnislaust. Þess vegna er nú tækifæri, og ekki bara tækifæri, heldur nú er skylda til að stinga niður fæti og staldra við.

Það eina sem við höfum farið fram á í þessari umræðu er að pakkanum verði hafnað þannig að hann fari í sáttameðferð þannig að lögformlegir fyrirvarar verði með þeim hætti að þeir standist íslenskan rétt og þjóðarétt. Það er það eina sem við höfum farið fram á. (Forseti hringir.) Í því felst að vísu pólitísk óvissa. En það er náttúrlega hlutur sem við erum að fást við á hverjum einasta degi.