149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það kemur fram í álitsgerðinni sem ég vitnaði til áðan að þeir segja að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA — og þeir reyndar fara ágætlega yfir samspil ESA og ACER-stofnunarinnar og teikna það ágætlega upp að ESA er í raun viðtakandi, hefur ekki frumkvæði að því að skrifa niður stöður eða útkomu úr ágreiningi. Meðal annars er notað enska orðið „shall“, þ.e. skal, í greinargerðinni. Sumir hér hafa sagt að það sé allt í lagi að innleiða þetta vegna þess að við frestum stjórnskipulega vandanum. En vandinn er til staðar. Óvissan er til staðar samt sem áður. Er þá ekki meiri bragur að því að taka af allan vafa með stjórnarskrána og ganga úr skugga um það núna hvort það standist (Forseti hringir.) fullkomlega eða ekki?