149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Þannig stendur á í þessu máli að það eru fyrirvarar sem leika svolítið um umræðuna. Fyrirvararnir eru af tvenns konar tagi. Við erum annars vegar að tala um það sem kallast stjórnskipulegur fyrirvari, hins vegar lagalegur fyrirvari.

Förum yfir þetta, herra forseti. Hin sameiginlega nefnd sem oft er vitnað til er nefnd sem er skipuð fulltrúum EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtensteins auk fulltrúa Evrópusambandsins. Þetta er sameiginlega nefndin. Á vettvangi þeirrar nefndar eru teknar mjög mikilvægar ákvarðanir.

Hinn 7. maí 2017 var ákveðið að taka upp þriðja orkupakkann. Þá er ákveðið að Ísland annars vegar þurfi ekki að taka upp þær gerðir eins og það heitir, þ.e. reglugerðir, tilskipanir, sem lúta að jarðgasi. Hins vegar var þannig frá málum gengið, eins og altíða er, að löndin setja svokallaðan stjórnskipulegan fyrirvara við samþykkt þeirrar ákvörðunar. Það er sá stjórnskipulegi fyrirvari sem þessi þingsályktun snýst um og með því að samþykkja hana fellur hann brott og þá erum við búin að axla þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að innleiða gerðirnar í íslensk lög.

En lagalegi fyrirvarinn á að vega það upp að hætta sé á að þetta rekist á við stjórnarskrána. Nú stendur þannig á að lagalegi fyrirvarinn hefur ekki fundist, ekki hafa komið skýr svör um það í hverju hann felst. Og ég spyr hv. þingmann, sem (Forseti hringir.) á sæti í forsætisnefnd: Hversu illa undirbúið þarf mál að vera, hversu lélegt þarf það að vera og á hversu (Forseti hringir.) veikum forsendum þarf það að hvíla til að því sé vísað frá sem verandi ekki þingtækt? (Forseti hringir.) Þetta mál er ekki þingtækt, (Forseti hringir.) herra forseti.

(Forseti (GBr): Enn minnir forseti hv. þingmenn á að virða ræðutímamörk. Ræðu er lokið þegar rauða ljósið byrjar að loga.)