149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að draga þetta saman segist ríkisstjórnin vera með mál sem kallar á að gerður sé lagalegur fyrirvari. Þegar hún er spurð að því hvar sá lagalegi fyrirvari sé getur hún ekki svarað því. Einstakir þingmenn í stjórnarliðinu hafa teflt fram hinum og þessum og öðrum skýringum. Þær hlaupa í fjölda talið á bilinu sex til átta. Engin þeirra virðist vera þannig vaxin að hún yrði tekin til greina af segjum EFTA-dómstólnum eða hafa þjóðréttarlegt gildi. Og ég lýsi eftir þeim lögfræðingi sem myndi svara því til að nokkrar af þeim tilgátum sem hér hafa verið nefndar hafi minnsta þjóðréttarlegt gildi.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Hvernig má það vera að Alþingi sé boðið upp á það að eiga að fara að samþykkja þetta mál? Lykilforsendan fyrir samþykktinni er lagalegi fyrirvarinn. Hann hefur ekki verið sýndur. Það er ekki óyggjandi um það hvar hans sé að leita. Er þetta mál yfir (Forseti hringir.) höfuð talað þingtækt, herra forseti?