149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get endurtekið það sem ég sagði áðan að það er í sjálfu sér gáleysi að hafa ekki gert að því reka að fá alvöruniðurstöðu í það hvort þetta mál teljist þingtækt eða ekki. Það hafa reyndar, eins og ég hef sagt, komið fram upplýsingar eftir að umræðan hófst sem hafa enn vakið fleiri spurningar, meiri tortryggni og í sjálfu sér staðfest þann ótta sem menn höfðu um að þetta mál stæðist stjórnarskrána og verulegur vafi væri á því, svo að maður sé kurteis aftur, að þeir fyrirvarar, þegar þeir fyndust, sem höfðu verið boðaðir, m.a. í reglugerðum og öðru, stæðust fyrir dómi. Það kemur t.d. ágætlega fram í því viðtali sem ég vitnaði til áðan frá 10. apríl sl. við Friðrik Árna Friðriksson Hirst. Þar segir hann á mjög ljósan og skýran og yfirvegaðan hátt frá efasemdum sínum. Við eigum að (Forseti hringir.) hlusta á sérfræðinga, herra forseti.