149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil spyrja þingmanninn til þess að við skýrum það í umræðunni: Hvar eru þau mörk sem við setjum þegar kemur að því að halda stjórnarskrána, eins og við höfum svarið eið að, þegar um er að ræða stjórnskipulegt vafaatriði? Er það nóg, er það haldbært sem þingmaðurinn hefur sett niður fyrir sjálfum sér? Því að hann þarf að styðjast við sína sannfæringu þegar kemur að þeirri ákvörðun sem hann tekur hér. Hann þarf líklega að rökstyðja það einhvern veginn hvort hann telur það halda stjórnarskrá þær ákvarðanir sem hann tekur. Sjálfur hef ég gert mitt besta til að láta stjórnarskrána njóta vafans. Ég hef gert mistök þar.

En ég hef líka verið hér og nefnt þau stjórnskipulegu álitaefni í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs þegar var verið að tala um stjórnskipulegt álitaefni. En ég segi hér í ræðustól: Nei, það er álitaefni. Við getum það ekki, við verðum að halda stjórnarskrána hvað þetta varðar. Kannski geta menn þá gert (Forseti hringir.) mistök, eða eftir að hafa skoðað málið betur komið með breytta skilgreiningu.

Hver er skilgreining hv. þingmanns á því (Forseti hringir.) hver mörkin eru? Er hann kominn með skýr mörk um það hvað hann þarf að gera (Forseti hringir.) varðandi stjórnskipuleg álitaefni þegar kemur að því að halda stjórnarskrá?