149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Tökum eitthvert praktískt atriði. Ég stóð frammi fyrir einu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir stuttu varðandi innleiðingu á reglugerð frá Evrópusambandinu. Hún kemur í gegnum EES-samstarfið til Íslands, til ráðherra, utanríkismálanefndar og svo loks til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar af því að það var stjórnskipulegt álitaefni. Þá fáum við einmitt upplýsingar um að þetta hafi oft verið gert áður, þetta sé vel skilgreint, vel afmarkað og skýrt þannig að þetta ætti allt að vera í lagi. Einmitt, menn ganga lengra og lengra og einhvern tímann verða menn í heildina búnir að ganga of langt. Ég vildi því ekki skrifa undir þetta vegna þess líka að farið var að stíga aukaskref. Það var ekki það að ESA gæti gengið á íslensk stjórnvöld, íslenska ríkið eða íslenska stofnun. Nei — íslenska stofnun eins og í tilfelli þriðja orkupakkans, heldur átti að heimila að ganga á íslenskan lögaðila og sekta hann fjársektum, að ESA gæti gert það.

Finnst þingmanninum það vera að fara yfir strikið um að halda stjórnarskrá?