149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir leiðbeiningar forseta í þessum efnum. Þær eru alltaf gagnlegar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, en mér heyrðist að hann væri nú nær stjörnufræði og eðlisfræði en stærðfræði í samlíkingu sinni hér. En ég gat ekki betur heyrt en að hann væri að samsinna því viðhorfi að auðvitað sé þetta á endanum matskennt. Þá vil ég spyrja hvort hann: Þegar borin eru saman þessi tvö tilfelli sem hér um ræðir, annars vegar mál sem lýtur að orkuauðlindum þjóðarinnar og hins vegar mál sem lýtur að fjármálafyrirtækjum sem starfa í alþjóðlegu umhverfi, telur hann og er samþykkur því, eins og ég, að þessi samanburður sé reistur á málefnalegum forsendum, að sé eðlilegt að bera þetta saman? Telur hann að þegar um er að ræða auðlindir þjóðarinnar sé meiri þörf á aðgát en í hinu tilfellinu?