149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst í smá framhjáhlaupi koma í ræðu minni inn á það atriði sem hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Njáll Trausti Friðbertsson, nefndi áðan, bara svo það mál falli ekki milli skips og bryggju. Það hefur ítrekað verið kallað eftir því að við Miðflokksmenn útskýrum hvers vegna við teljum ástæðu til að fresta málinu, setja það í ákveðinn farveg, setja það inn á haustið, jafnvel lengra. Atriðin bætast við.

Sú staðreynd — það má vera að hún hafi verið nefnd í umræðunni áður, þótt alllangt sé um liðið síðan stjórnarþingmenn tóku þátt í umræðunni og er þakkarvert að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson sé mættur hér og ætli að vera með okkur fram á kvöld, geri ég ráð fyrir — að verið sé að vinna að orkustefnu fyrir Ísland, eins og hv. þingmaður kom inn á með 22 kjarnaatriðum, undirstrikar það enn og aftur að við erum að byrja á öfugum enda. Auðvitað eigum við að klára þessa vinnu, klára orkustefnuna, taka hana fyrir á þingi og halda síðan áfram með orkupakkamál Evrópusambandsins, svona eftir því sem skynsamlegt þykir, ef það þykir skynsamlegt.

En nú langar mig að koma inn á það sem ég ætlaði að nefna í ræðu minni, þessari fyrstu ræðu eftir það stutta hlé sem varð á umræðunum um þriðja orkupakkann. Þannig er mál með vexti að alloft hefur verið talað á þeim nótum að hér sé ástæða til að leiða þingviljann fram, það sé meiri hluti í stjórnarflokkunum fyrir því að klára þetta og með þeim rökum væri okkur í Miðflokknum hollast að kalla þetta gott.

En þá verðum við líka að spyrja okkur: Um hvað var kosið, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson, af því að ég heyri að þú ert á leið í andsvar? Um hvað var kosið í kosningunum fyrir rúmu ári síðan? Gátu stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins vænst þess að Sjálfstæðisflokkurinn riðu í broddi fylkingar við innleiðingu þriðja orkupakkans? Er eitthvað í gögnum sem liggja fyrir síðan í kosningum eða greinum sem benti til þess? Ég held ekki. Þvert á móti. Gátu stuðningsmenn Framsóknarflokksins reiknað með því að Framsóknarflokkurinn, á sama tíma og hann tekur þátt í Íslandsmeistaramótinu í feluleik, væri einhvern veginn að leggja stuðning sinn við það að innleiða þriðja orkupakkann, bara nákvæmlega eins og hann kemur fyrir? Það gat ekki nokkrum stuðningsmanni Framsóknarflokksins komið það til hugar. Bara engum. Og því síður þeim sem lásu stefnu flokksins og ályktanir.

Svo er talað um að hér þurfi að leiða þingviljann fram. Mesta vorkunn eiga sennilega stuðningsmenn Vinstri grænna skilið, því að enginn flokkur hefur verið harðari gegn innleiðingu orkupakkans á fyrri stigum. Þingflokkur Vinstri grænna var algerlega grjótharður með öllum greiddum atkvæðum á móti fyrsta orkupakkanum og á móti öðrum orkupakkanum. Það hvarflar ekki að mér að menn hafi einu sinni séð ástæðu til að leita sér upplýsinga um hver afstaða Vinstri grænna var gagnvart þriðja orkupakkanum. Svo skýr hafði sá flokkur verið á fyrri stigum.

Svo koma menn hér, þeir fáu sem hætta sér í pontu, þó einhverjir, örfáir í andsvör, fyrst og fremst með einhverjum skætingskommentum eða meldingum á fésbókarsíðum sínum og segja að nú sé tími til kominn að leiða þingviljann í ljós. Bara svo það sé sagt var ekki um þetta kosið, enda bendir allt til þess að hefði þetta verið mál í kosningum hefðu þessir þrír flokkar samanlagt ekki þingstyrk til að keyra málið í gegn. Þessir þrír flokkar sem hafa verið grjótharðir gegn þessari innleiðingu á fyrri stigum, sem sagt gagnvart orkupakka eitt og tvö, og gagnvart orkupakka þrjú, þó að enginn hafi athugað með Vinstri græna því að það þótti svo augljóst, þeir sem studdu þá flokka finna sig nú í þeirri stöðu að það sé röksemd fyrir því að klára málið, að leiða þurfi þingviljann í ljós, þessara hópa sem aldrei hefðu sennilega náð meiri hluta hefði vilji þeirra legið fyrir í þessu máli.

Það má nota ýmis rök til að keyra málið áfram en þessi þykja manni klén, hafandi skoðað afstöðu flokkanna á fyrri stigum málsins.