149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held áfram að spyrja. Það er gott svigrúm til að eiga samtal við fyrri umr., stuttar ræður, maður getur spurt spurninga og svona, þannig að samtalið geti rúllað svolítið vel.

Það sem ég er að reyna að átta mig á er hver strikin séu sem hv. þingmenn miða við, sem segja að innleiðing þriðja orkupakkans sé stjórnskipulegt álitamál, og á þeim forsendum erum við hér uppi að tala. Ég virði það fyllilega að þingmenn séu hérna og beiti málþófi. Ég hef ítrekað sagt að maður eigi að beita málþófi ef maður ætlar að standa með þjóðarviljanum og ef málið er þess efnis að það varðar gríðarlega hagsmuni. Þá á maður klárlega að stunda málþóf. Á sama tíma verður maður að fara mjög varlega með það í allri umræðu þegar maður öskrar úlfur, úlfur, maður verður að telja að það sé þá raunverulega úlfur. Og líka ef maður áttar sig á því að þetta er kannski ekki úlfur, þetta er kannski bara hvolpur og ekki eins hættulegur og maður hélt í upphafi, þá er mikilvægt að maður sé tilbúinn til þess að bakka með það, sem getur verið erfitt í stjórnmálum.

Gefum okkur að þeir sem eru hérna í umræðunni séu ærlegir, séu heiðarlegir með það — Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, bendir á að það sé gott að byrja bara þar, byrja bara ganga út frá því. Þá fór ég að hugsa: Ókei, hvers myndi maður þá spyrja? Maður myndi spyrja: Hvar er línan sem hv. þingmenn draga varðandi stjórnarskrána, draga varðandi það að hafa svarið eið að stjórnarskránni, heitið að halda hana? Hvar er línan þar sem þeim finnst þeir fara yfir strikið varðandi stjórnarskrána þegar kemur að því að afsala fullveldi til annarra ríkja? Við verðum að afsala einhverju fullveldi ef við ætlum að vera í alþjóðasamningum, ef við ætlum að vera á innri markaðnum, ef við ætlum að geta selt fiskinn á innri markaðinn án þeirra hindrana sem þar eru. Það er mikilvægt að það komi fram í umræðunni.

Ég mun halda áfram að spyrja hv. þingmann. Við skulum reyna að átta okkur á þessu. Hvar dregur hv. þm. Bergþór Ólason línuna varðandi fullveldisafsal?