149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir andsvarið. Við spurningu eins og þessari er mjög erfitt að koma með afmarkað svar, en ég ætla samt að reyna. Í þessu máli hefur til að mynda einn af guðfeðrum Viðreisnar, sem er flokkur sem sannarlega er áhugasamur um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, talað um að beitt hafi verið lofsverðum blekkingum til að ná málinu á þann stað þar sem það er í dag.

Sú athugasemd hefur oftast verið tengd við hina svokölluðu fyrirvara, sem eru svolítið á reiki, en það skiptir ekki öllu máli gagnvart þessum hluta svars míns. Ég held að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi félagi í Viðreisn, hafi líka verið að tala um þessa útfærslu sem snýr m.a. að því að fresta hinum stjórnskipulega vanda til þess tíma er sæstrengur verður lagður. En síðan er atriði sem hefur kannski ekki verið mikið rætt, það er þessi feluleikur með hlutverk ACER sem eins konar — ég ætla að leyfa mér að segja að þar sé verið að reyna að komast fram hjá tveggja stoða lausninni með því að ESA verði í hlutverki eins konar póstburðardrengs hvað varðar afstöðu ACER til mála sem upp kunna að koma.

Ég get sagt fyrir mig að þetta er í rauninni það atriði sem stingur mest, þ.e. hlutverk ACER sem umsagnaraðila, ritara niðurstöðu, eða hvað við viljum kalla það, (Forseti hringir.) í álitaefnum þar sem ESA er sagður hinn formlegi ákvarðanatökuaðili, þegar (Forseti hringir.) svo virðist vera að ESA sé fyrst og fremst ætlað (Forseti hringir.) það hlutverk að enduróma niðurstöðu (Forseti hringir.) ACER hvað deiluefni varðar.