149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hefur á það verið bent, m.a. í umsögnum þeirra sem fjalla um þetta mál, að með því að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og innleiða þessar gerðir erum við að innleiða hugmyndafræði, markmið og stefnu ACER-stofnunarinnar, sem býr að baki hinum sameiginlega orkumarkaði.

Það er vissulega rétt að unnið er að orkustefnu fyrir Ísland. Það er unnið að henni en hún er ekki til. Það er til einhver stefna síðan 2010 eða 2011 eða hvað það var, sem getur varla talist í gildi. Í þeirri stefnu var reyndar fjallað um sæstreng, ég veit ekki hvort það verður í nýju stefnunni. Má þá ekki með sanni segja að mjög undarlegt sé að fara innleiða í dag stefnu og markmið Evrópusambandsins í þeirri orkustefnu? Allar hugmyndirnar koma fram í plagginu sem Evrópusambandið kallar Hrein orka fyrir alla Evrópubúa. Það er í rauninni fjórði orkupakkinn. Það er búið að skrifa upp og tengja alla þessa orkupakka á einn stað og þetta er hluti af heildarstefnunni.

Þá spyr maður hvort eðlilegt sé að halda áfram að innleiða markmið, stefnur, stofnanir sem Evrópusambandið er með í sinni orkustefnu, halda áfram að innleiða það á Íslandi áður en íslenska stefnan er tilbúin. Ég spyr um þetta því að það er að mínu viti mikilvægt atriði.

Meðan við erum að gera þetta og erum ekki með eigin orkustefnu til að taka mið af, leggja út frá þá erum við að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins, vegna þess að hún er skrifuð inn í alla þessa orkupakka. Til að mynda er strax í orkupakka fjögur verið að breyta gerðunum sem eru til umfjöllunar núna í orkupakka þrjú á Alþingi. Þetta er ein samfella, allir þessir pakkar, þetta er ein stefna sem við erum að innleiða í dag.