149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni andsvarið. Evrópusambandið má eiga það að það er ekki í neinum feluleik með stefnu sína í þeim efnum og hver markmiðin eru með innleiðingu. Það getur hver sem er hérna í salnum farið á netið og lesið sér til um það og þá sérstaklega núna þegar fjórði orkupakkinn liggur fyrir afgreiddur frá ráðherraráðinu.

Það stenst enga skynsemisskoðun, held ég að sé óhætt að segja, að innleiða fyrsta orkupakkann og annan orkupakkann þannig að gengið var mun lengra en krafa var uppi um og síðan núna þriðja orkupakkann, m.a. með þeim rökum að okkur hafi tekist svo vel að innleiða annan orkupakkann, og ætla síðan að segja einhvern tímann í framtíðinni við Evrópusambandið: Ja, við höfðum ekkert betra að gera þann daginn þannig að við skelltum þessu inn í kerfið, en við vorum á sama tíma að græja okkar eigin stefnu og ætlum að miða við hana.

Auðvitað erum við að senda það merki að við ætlum að vera hluti af hinum sameiginlega markaði, undirgangast þær reglur sem þar eru og haga málum okkar til samræmis við það. Annað eru bara útúrsnúningar og sýndarmennska og menn eiga að tala um hlutina eins og þeir eru. Framgöngu þeirra sem tala ákafast fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans á þeim forsendum sem nú hefur verið stillt upp hefur í allri einlægni af manni sem þekkir ágætlega til verið lýst sem lofsverðum blekkingum, af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni, núverandi Viðreisnarmanni. Það skyldi engan undra að efasemdir þeirra sem á annað borð efast um innleiðinguna minnki ekki með þessari lýsingu á framgöngunni.