149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hv. þingmaður minntist á, hefur líka fagnað því mjög að þessi innleiðing eigi sér stað því að það sé ágætisupptaktur að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Mér þótti sérstakt að sjá Sjálfstæðisflokkinn berjast fyrir því.

Nú er orkupakki þrjú til umfjöllunar og orkupakki fjögur liggur fyrir. Búið er að tilkynna að orkupakki fjögur sé EES tengdur, þ.e. að EES-ríkin þurfa að taka hann upp annaðhvort að hluta eða að öllu leyti.

Ég velti því upp við hv. þingmann hvaða líkur séu á því að íslensk orkustefna, sem unnið er að, geti farið í bága við orkupakka þrjú eða fjögur eða þá orkustefnu Evrópusambandsins sem verið er að innleiða með orkupakka þrjú og orkupakka fjögur. Munum við geta tekið upp einhverja stefnu sem fer í veigamiklum atriðum gegn orkustefnu Evrópusambandsins, gegn orkupakka þrjú, orkupakka fjögur?