149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að mönnum muni reynast erfitt að fullvissa sig eða einhvern annan um að það verði einfalt að vera með orkustefnu á Íslandi að þriðja pakkanum innleiddum og síðan fjórða pakkanum innleiddum og með sæstreng tengdan. Ég held að það væri í einhverju leikriti sem tengist ekki raunheimum á neinn máta.

Ég held að alveg ljóst sé að við erum dálítið á færibandinu, ef svo má segja, í þeim málum og tannhjól fjórfrelsisins bara malla og snúast í rétta átt og alltaf þá sömu gagnvart þessum efnisatriðum. Ég held að því miður sé það mikil einfeldni eða barnaskapur í besta falli að halda því fram (Forseti hringir.) að hér sé hægt að innleiða orkupakka eftir orkupakka án þess að það hafi áhrif (Forseti hringir.) á möguleika til sjálfstæðrar stefnu í framtíðinni í orkumarkaðsmálum.