149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að mér er nokkuð brugðið eftir alla þá umræðu sem hér hefur átt sér stað að komast að því núna eftir 135, 136 tíma að það sé ekkert í þessum orkupakka annað en atriði sem snúa að tengingu grunnvirkja til flutnings raforku yfir landamæri.

Hér hafa menn farið með mikinn fagurgala um að þetta sé svo mikið neytendamál, menn geti bara skipt um orkusala. Það sé stóra málið. (NTF: Stóra myndin.) Ef stóra myndin er sú, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson segir, að þetta snúist aðeins um þessi grunnvirki þá fyrst liggur ekki á að klára þetta. Ef það er málið þá frestum við þessu strax fram á haust, þá frestum við umræðu strax, bara núna. Það hefur verið talað linnulaust, ef hægt er að tala um linnulaust í samhengi við málflutningi stuðningsmanna orkupakkans í þessari umræðu, (Forseti hringir.) um að þetta sé svo mikið neytendamál, það séu svo mikil réttindi og gegnsæi og regnbogar og perluduft að (Forseti hringir.) sáldrast yfir okkur. Þetta eru áhugaverðar fréttir.