149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram að spyrja varðandi stjórnarskrána. Það er einn af liðunum í þessu máli sem varðar fullveldi, afsal þess og hvar við setjum mörkin og er kannski eitthvað sem við þurfum sérstaklega að taka tillit til af því að við höfum svarið eið að stjórnarskránni. Svo er það náttúrlega hitt stóra málið fyrir landsmenn, það sem brennur á landsmönnum, en það er hættan sem margir sjá fyrir sér á því að missa yfirráð yfir auðlindum okkar, orkufyrirtækjum og orkuinnviðum.

Mig langar að byrja á því að reyna eins og ég hef verið að gera að fá það skýrt inn í umræðna hvar hv. þingmenn sem tala um þennan stjórnskipulega fyrirvara, sem margir sérfræðingar hafa talað um, setja sjálfir mörkin, hvenær þeim finnst að þeir standi ekki lengur að standa við sinn eið að stjórnarskránni. Það segir í stjórnarskrá og í þingskapalögum að við leggjum drengskap okkar við því að halda stjórnarskrá.

Mig langar að spyrja þingmanninn um þetta. Ég hef gert mitt besta hingað til, en ég hef gert mistök hvað það varðar eins og fleiri þingmenn að greiða atkvæði með máli sem síðan var stjórnskipulegt álitamál. Ég hef verið mjög skýr í mínum þingflokki að þetta er mín afstaða varðandi það hvar mér finnst ég ekki geta stigið lengra, þ.e. leyfa stjórnarskránni að njóta vafans þegar það er álitamál um hana.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvar hann setur mörkin. Einföld spurning í upphafi. Við erum með tvö fullvalda ríki sem eins og tveir lögráða einstaklingar geta gert samninga sín á milli og það er einhvers konar gerðardómur eða einhver aðili sem getur dæmt um það. Þegar kemur að ríkinu Íslandi í EES-samstarfinu er það EFTA-dómstóllinn eða ESA sem tekur slíkar ákvarðanir og getur gert þær bindandi að einhverju leyti. En hvað finnst þingmanninum þegar einhver aðili í EFTA-samstarfinu getur beint sektað íslenskan lögaðila eins og í máli (Forseti hringir.) sem var í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nýlega? Finnst honum það ganga of langt? Eða er hann með skýra hugmynd almennt hvar mörkin liggja?