149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég átti eftir að klára að telja upp fyrirvarana. Ég átti fimmta atriðið eftir. Það hefur einnig verið bent á að lagalega fyrirvarann sé að finna í texta í greinargerð þingsályktunartillögunnar sem við ræðum nú á, bls. 3, og ég hef lesið þann texta.

Ekkert af þeim fimm atriðum sem ég hef nefnt, og hugsanlega eru þau fleiri, dugir. Ekkert af þeim dugir ef það verður af innleiðingu orkutilskipunarinnar óbreyttri, eins og við erum að ræða hér, til þess að fría okkur frá því að vera þjóðréttarlega skuldbundin samkvæmt orkutilskipun Evrópusambandsins, ekkert af þeim.

Stjórnarliðar eru spurðir um þetta: Hvar er lagalegi fyrirvarinn? Hvar er hann? Megum við sjá hann? En þeim fyrirmunað að útskýra það á mannamáli fyrir þjóðinni. (Forseti hringir.)

Já, herra þingmaður: Ykkur er fyrirmunað að útskýra það fyrir okkur og þjóðinni (Forseti hringir.) hvar hann er að finna og hvaða gildi hann hefur (Forseti hringir.) þjóðréttarlega.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)