149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég tók sérstaklega eftir því að hann minntist á að það þyrftu að vera sættir um málið, ef ég heyrði rétt. Mér finnst þetta mjög athyglisvert innlegg hjá hv. þingmanni vegna þess að hér er á ferðinni mjög stórt mál. Það varðar komandi kynslóðir, börnin okkar og barnabörn o.s.frv., og getur haft veruleg áhrif á heimilin í landinu, fyrirtækin í landinu. Það er alveg ljóst að innleiðing orkupakka þrjú er undanfari þess að samþykkja orkupakka fjögur og við komum til með að horfa fram á sæstreng innan einhvers árafjölda. Ég held að það sé alveg ljóst að hann kemur. Forstjóri Landsvirkjunar hefur m.a. fullyrt það.

Þá vekur það sérstaka athygli í þessu máli að meiri hluti þjóðarinnar er á móti því. Verkalýðsfélögin hafa ályktað, bæði Alþýðusamband Íslands, VR og fleiri félög, á þann veg að ekki eigi að innleiða þessa tilskipun og þau hafa miklar áhyggjur af því að raforkuverð til heimila í landinu muni hækka. Við höfum sýnt fram á það hér, Miðflokksmenn, í okkar málflutningi að við innleiðingu orkupakka eitt og tvö þá hækkaði rafmagnsverð og það verulega á svokölluðum köldum svæðum á sumum stöðum á landinu vegna þess að þessir orkupakkar, tilskipanir Evrópusambandsins, bönnuðu sérstaka samninga sem vörðuðu niðurgreiðslur.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann gæti farið nánar út í þetta og hvaða afleiðingar hann sæi fyrir sér (Forseti hringir.) af því að innleiða mál af þessu tagi í svo miklu ósætti við þjóðina, (Forseti hringir.) verkalýðshreyfinguna.