149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er akkúrat þessi punktur með náttúruverndarsjónarmiðin sem t.d. einn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, hafa talað mikið um að við ættum að passa upp á, það er náttúruvernd. Ég er algjörlega sammála því. Þess vegna finnst mér mjög sérstakt að sá ágæti flokkur skuli standa að þessu máli vitandi það að þetta mun skapa meiri atgang gagnvart náttúrunni. Það hefur t.d. verið talað um sjónmengun í sambandi við vindmyllugarðana og eins með loftlínur og annað slíkt og auknar fallvatnsvirkjanir hér og þar, þótt ég sjái nú reyndar ekki mikinn ljótleika í því. En það er misjafn smekkur mannanna. Annað er í þá áttina. Þetta er allt eitthvað sem þarf að taka miklu meiri tíma í að landa til þess að ná (Forseti hringir.) þeirri sátt sem þarf að nást áður en svona ákvörðun er tekin.