149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Einstaklega virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að halda áfram umræðu um þriðja orkupakkann því að ekki er vanþörf á. Frá því að við vorum síðast ræða þessi mál hefur ótal margt nýtt litið dagsins ljós, ný rök, nýir hlutir til þess að, svo að ég segi eins og er, hafa áhyggjur af og nýjar spurningar til að spyrja.

Til að setja hlutina í samhengi tel ég engu að síður rétt að byrja á stuttu yfirliti yfir það sem fram hefur komið fram að þessu. Þetta er ekki tæmandi yfirlit. Eins og hæstv. forseti þekkir hefur þessi umræða miklu leyti farið fram um hánótt þegar fólk hefur ekki haft tækifæri til að fylgjast með henni og afleiðingin er auðvitað sú að það kann að hafa verið erfitt á stundum að halda þræði varðandi heildarsamhengið. Svoleiðis að ég ætla að stikla á stóru varðandi framgang þessa máls til að geta síðan leitt inn í það sem hefur gerst frá því að umræðu var frestað.

Í fyrstu var þetta mál kynnt sem mál sem skipti í rauninni engu máli, hefði engin áhrif fyrir okkur Íslendinga, væri bara einhver tæknileg EES-innleiðing. En um leið var sagt, sérstaklega eftir að gerðar voru athugasemdir við það, að gríðarlega mikilvægt væri að klára málið og innleiða það. Hæstv. iðnaðarráðherra hafði raunar nefnt að málið mætti vel bíða haustsins en svo birtist það skyndilega og okkur var sagt að það yrði að klára innleiðinguna.

Áhyggjum fjölmargra, stórs hluta Íslendinga, meiri hluta Íslendinga, mikils meiri hluta, til að mynda stuðningsmanna allra stjórnarflokkanna og ályktunum þessara flokka var svarað með svokölluðum fyrirvörum, að nú væri málið leyst. Jú, kannski hefði verið rétt að hafa dálitlar áhyggjur af því en það væri búið að leysa það með fyrirvörunum svokölluðum. Í ljósi þess að það voru einmitt þeir fyrirvarar sem notaðir voru til að selja málið, ef svo má segja, herra forseti, selja það a.m.k. þingflokkum stjórnarflokkanna, þá þótti okkur í Miðflokknum mikilvægt að fá á hreint hverjir fyrirvararnir væru og hvers eðlis og hvort þeir væru til þess fallnir að skila þeim árangri sem fullyrt var við okkur að þeir myndu skila.

Það kom reyndar fram í utanríkismálanefnd af hálfu sérfræðinga sem þar mættu að þeir hefðu ekki séð fyrirvarana. Þó voru þeir búnir að kynna sér öll gögn málsins en þeir höfðu ekki séð fyrirvarana og tóku skýrt fram að fyrirvararnir þyrftu að vera þess eðlis — og þetta er algert grundvallaratriði, herra forseti, ég hef nefnt þetta áður en ég tel mikilvægt að undirstrika það núna — að innleiðing ætti sér ekki stað. Á sama hátt og menn samþykkja stundum frumvörp í þinginu þar sem gildistöku er frestað þá þyrftu fyrirvararnir í þessu máli að vera þess eðlis að innleiðingin ætti sér ekki stað fyrr en eitthvað ákveðið gerðist.

En það er ekki sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið. Hún talar fyrir því og segir frá því í þeirri ályktun sem við ræðum nú að málið verði innleitt í heild. Við spurðum svo: Hvað með fyrirvarana? Hvar er þá finna? Það var einmitt hv. þm. Ólafur Ísleifsson sem spurði hv. þm. Birgi Ármannsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, þeirrar spurningar. En þá varð uppi fótur og fit og ég efast ekki um að hæstv. forseti muni eftir því. Þá hófst í raun leitin að fyrirvörum.

Í fyrstu voru það stjórnarliðar sem hófu leitina, hlupu hér milli herbergja og flettu blöðum til að reyna að finna fyrirvarana, en sú leit bar ekki meiri árangur en svo að við í þingflokki Miðflokksins töldum ríkisstjórnina þurfa hjálp við leitina. Alla tíð síðan hefur hv. þm. Karl Gauti Hjaltason haldið utan um rannsóknirnar, leitina að fyrirvörunum, eins og hann kom aðeins inn á í ræðu áðan.

Herra forseti. Hvernig á ég að geta, jafnvel þótt ég stikli á stóru, farið yfir aðdraganda þess sem við erum að ræða á aðeins fimm mínútum? Ég skil það að hæstv. forseti getur ekki úthlutað mér meiri tíma að sinni. Ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.