149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég held áfram að spyrja fyrst það gefst rúmur tími í að ræða þetta, ég kem seint til leiks, um stjórnskipulega fyrirvara, þ.e. hvar línan er. Í ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar voru mál þar sem voru uppi stjórnskipuleg álitaefni eins og málið um fjármálaeftirlit sem kemur frá EES. Björg Thorarensen kom með það álitaefni inn í nefndina. Málið var samt sem áður samþykkt í þingsal og það er gert þannig að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur málið og segir: Jú, það eru álitamál þarna, en þetta verður afgreitt í þingsal. Það er svo sent til utanríkismálanefndar. Utanríkismálanefnd segist samþykk áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að það séu álitamál, nefndarmenn eru ekki alveg sammála en það verði afgreitt í þingsal, hún afgreiðir málið þannig frá sér.

Síðan kemur málið hingað í þingsal og þá var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, ekki á staðnum í atkvæðagreiðslunni en hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson greiðir atkvæði með málinu. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að það sé út af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segir einmitt að álitamál um stjórnarskrána séu afgreidd í þingsal. Menn greiða atkvæði með málinu og hv. þm. Frosti Sigurjónsson gerir það líka.

Nú gera menn mistök og kannski breyta menn afstöðu sinni til þess hvar línan er með stjórnskipulega fyrirvara. Ég hef sjálfur gert mistök í þessum efnum af því að það var ekki skýrt þegar ég var að spyrja fólk hvort mál stæðist stjórnarskrána. Ég var með aðra skilgreiningu á því. Það hefur gerst, meira að segja eftir að ég var skýr með afstöðuna. Ég hef stundum fengið rangar upplýsingar og tekið óupplýsta ákvörðun en taldi mig upplýstan. Ég vil spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvar hans lína er, hvenær hann er sannfærður um að mál standist stjórnarskrá eins og hann er stjórnarskrárbundinn til að gera og hefur svarið eið þar að. Hvar er hans lína varðandi það að halda stjórnarskrána þegar kemur að afsali (Forseti hringir.) valds, fullveldis, til stofnana utan landsins?