149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Takk forseti. Já, það er rétt, þetta var um haustið. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var ekki forsætisráðherra þá, það er rétt. Það var sem sagt á því kjörtímabili og ríkisstjórnartímabili þegar hv. þingmaður var forsætisráðherra sem unnið var að þessu og hans flokksmeðlimir, m.a. menn sem eru núna í Miðflokknum.

Nei, þetta eru alls ekki rök: Það er einmitt það sem ég hef sagt í fyrri andsvörum. Það að eitthvað hafi verið gert einu sinni eru alls ekki rök fyrir því að gera það aftur. Það er einmitt það sem ég hef sagt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar ég hef greitt atkvæði á móti áliti um að stjórnskipulegum fyrirvara skuli aflétt, það standist ekki stjórnarskrá.

Ástæðan fyrir því að ég spyr svona er að Peter Drucker, faðir nútímastjórnunar, ég hlusta mikið á hann, segir: Byrjið á því að ganga út frá því að fólk sé að gera hlutina af heilindum. Hvaða spurningar kvikna þá? Spurningin sem kviknar hjá mér þá er: Hvar setja menn línuna varðandi stjórnarskrána? Það er þess vegna sem ég er að spyrja. Ég spyr þingmanninn aftur: Hvar setur hann línurnar varðandi stjórnarskrá?