149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið erfitt að svara þessari spurningu. Við höfum auðvitað séð fjölmörg illa unnin og á margan hátt slæm mál koma inn í þingið sem teljast samt vera þingtæk vegna þess að þau hafa verið sett fram með þeim hætti að hægt sé að taka þau fyrir samkvæmt þingsköpum.

Ég get a.m.k. á meðan ég velti fyrir mér spurning hv. þingmanns til bráðabirgða lýst því yfir að málið er ekki tækt. Málið er ekki pólitískt tækt, ekki stjórnmálalega tækt vegna þess, eins og hv. þingmaður benti á og ég fellst alveg á þau rök hans, að í rauninni er það komið hér inn með blekkingum, þótt hv. þingmaður hafi ekki notað það orð þá læt mér nægja að vitna í fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, Þorstein Pálsson. Þorsteinn Pálsson taldi þessar blekkingar lofsverðar vegna þess að tilgangurinn helgaði meðalið og útskýrði svo í framhaldinu að auðvitað væri þetta mál mikilvægur liður í framtíðarinngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem hann sér fyrir sér. Það er umræða, herra forseti, sem ég vona að mér gefist tími til að fara rækilega yfir í ræðum. Sá liður sem þetta mál er í því aðlögunar- eða inngönguferli sem margir vonast eftir, þó að sjálfsögðu alls ekki ég og við Miðflokksmenn.

Ég verð eiginlega að biðja hv. þingmann að virða það við mig að hvað varðar spurninguna um hvort málið sé þingtækt verð ég að fá að skoða það betur. Ég mun jafnvel leita liðsinnis hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar ef honum gefst tími, ef hann er ekki of upptekinn enn þá við leitina að fyrirvörunum, og biðja hann að rannsaka þetta sérstaklega svo að ég geti vonandi í framtíðinni svarað spurningu hv. þingmanns.