149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og langar mig aðeins að víkja að öðru mikilvægu máli tengt þessu máli. Nú er hv. þingmaður landsbyggðarþingmaður og ef ég er með það nokkuð á hreinu þá held ég að hans svæði, Norðausturkjördæmi, sé það svæði þar sem mest er um svokölluð köld svæði, þ.e. þar sem ekki er hitaveita. Þar af leiðandi er raforka til húshitunar það form sem margir nota til að kynda hús. Stjórnvöld hafa niðurgreitt raforkuverð til húshitunar sem er ákaflega mikilvægt fyrir þá sem kynda hús sín með rafmagni því það er mjög kostnaðarsamt og það eru ekki sömu lífsgæði sem fylgja því og hafa hitaveitu.

Nú er þrengt enn frekar að möguleikum til niðurgreiðslu raforku í tilskipun nr. 72/2009. Samkvæmt f-lið 37. gr. er það skylda eftirlitsyfirvaldsins, með leyfi forseta, „að tryggja að engar víxlniðurgreiðslur séu milli flutnings-, dreifingar- og afhendingarstarfsemi“. Með þessu er sem sagt verið að draga úr möguleikum hins opinbera til að niðurgreiða raforkuverð til kaldra svæða.

Þess vegna langaði mig að heyra það frá hv. þingmanni hvort þetta sé ekki verulegt áhyggjuefni og hvort það sé ekki hugsanlegt að þegar innleiðing orkupakkans er gengin í garð verðum við einfaldlega kærð fyrir það að niðurgreiða rafmagn til húshitunar.