149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég myndi vilja bæta við þessar athugasemdir hv. þingmanns. Það er vissulega rétt hjá honum að þetta skiptir verulegu máli á mörgum svæðum, ekki hvað síst í hinu geysifallega Norðausturkjördæmi. En á sömu svæðum hefur oft á tíðum, alla vega í mörgum tilvikum, atvinnuþróun ekki verið eins og við hefðum viljað sjá hana. Þar færi þetta saman ef raunin yrði að dregið yrði úr niðurgreiðslum eða þeim hætt. Þetta eru svæði sem eru oft á tíðum í vörn með tilliti til atvinnulífs og þurfa þá að borga miklu meira fyrir orkuna. Þess vegna verðum við að hafa möguleika á því, íslenska ríkið og orkuframleiðendur, að veita orku um allt land og tryggja að ekki sé of mikill munur á því verði sem menn þurfa að greiða fyrir þá orku. Hann er of mikill nú þegar, verð ég að viðurkenna.