149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Við ræðum áfram þriðja orkupakkann og við eru enn að kalla eftir svörum. Síðast þegar ég var í ræðu velti ég því upp að ég væri með einar 20 spurningar sem ég teldi mikilvægt að fá svör við áður en lengra yrði haldið, m.a. varðandi stjórnarskrána, valdframsal, hver tengslin væru milli orkupakka þrjú og fjögur, hver þróunin væri á gerðunum o.fl.

Herra forseti. Í orkupakka fjögur er skrifað að ákveðnar greinar sem eru til umfjöllunar á Alþingi munu taka breytingum í fjórða orkupakkanum. Hvers vegna vilja menn ekki skoða heildarmyndina? Hvers vegna vilja stjórnarþingmenn eða fylgjendur málsins ekki sjá hvað þeir eru samþykkja, hvaða áhrif það hefur á framhaldið? Ef einhverjum dettur í hug að menn geti sagt þegar búið er að innleiða orkupakka þrjú að við ætlum að sleppa orkupakka fjögur þá er það draumsýn. Annaðhvort setja menn niður hælana núna eða ekki.

Sá forseti er situr nú á forsetastóli hefur tekið þátt í umræðunni og spurt margra góðra spurninga. Ég veit að hæstv. forseti hefur ekki tök á að koma í andsvar við þann er hér stendur. Ég ætla hins vegar aðeins að fara í þær spurningar sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson spurði í ræðustól, mjög góðar spurningar: Hvar er línan varðandi stjórnarskrána og valdaframsalið?

Ég hef velt því fyrir mér undanfarið hvort við erum komin að þeirri línu, hvort við erum mögulega komin yfir hana. Ég minnist þess að fyrir nokkrum misserum hafi verið fjallað um það og mig minnir að það hafi verið, ég ætla að hafa smáfyrirvara á því samt, Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen sem veltu því upp hvort við gætum haldið áfram að gefa smá eftir af valdframsalinu. Við þurfum að velta því fyrir okkur. Ég treysti mér ekki, virðulegi forseti, til að segja að nákvæmlega núna sé komið að endastöð í því, að við getum ekki haldið svona áfram lengur. Það þurfa aðrir að meta, fræðimenn, sérfræðingar. En mér finnst ástæða til að staldra við og spyrja þessara spurninga. Spurning hv. þingmanns og núverandi forseta er mjög réttmæt og mikilvæg.

Síðan vil ég koma inn á það þegar gengið var frá reglum um fjármálastofnanir á Alþingi í september 2016. Það er rétt hjá hv. þingmanni að málið kemur fyrst fram 2012, ef ég man rétt, og er fjallað um það í nokkuð mörg ár. Málið er samþykkt, klárað á Alþingi með ákveðnum breytingum og ákveðnum fyrirvara, ef má orða það svo, með ákveðnum æfingum fyrir Ísland varðandi stjórnarskrána. Ég segi það alveg heiðarlega, herra forseti að ég velti því fyrir mér hvort það verið mistök að samþykkja það á sínum tíma. Ég held í hjarta mínu að það hafi verið mistök.

Ég held að við hefðum ekki átt að fara þá leið sem þar var farin og er núna í rauninni teiknuð upp sem einhvers konar leið að þessum orkupakka. Þó er meginmunur á málunum. Við vorum með fjármálareglur og reglur um fjármálamarkaði á þeim tíma. Nú erum við að tala um auðlindir landsins. Við erum að tala um orkuauðlindir landsins og hvernig við ætlum að deila ákveðnu forræði, ákveðinni umsýslu og stjórn á auðlindum okkar með öðrum. Er það það sem við viljum? Er þá mögulega búið að taka of stórt skref er varðar stjórnarskrána?

Það kemur fram, m.a. í áliti Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, að það sé stjórnsýslulegur vafi uppi. Er ásættanlegt að slíkur vafi sé uppi? Er ástæða til að fresta því bara að kveða upp úr um hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af þeim vafa? Að sjálfsögðu ekki, ekki síst þegar við bætist að 24. eða 25. maí afgreiddi Evrópusambandið orkupakka fjögur frá sér. Það liggur fyrir, og ég ítreka það, að hann er með skírskotun til EES-samstarfsins og það ber að fjalla um hann þar og hann gildir líka fyrir það svæði.

Er þá ekki betra að staldra við og skoða hver sameiginleg heildaráhrif af því að innleiða þessa tvo pakka eru? Er það virkilega þannig að þingmenn sem eru fylgjandi málinu líti svo að þetta sé hvor sinn hluturinn, að hægt sé að innleiða orkupakka eitt, tvö, þrjú og svo kannski fjögur? Þá hefðu menn alveg eins getað innleitt orkupakka eitt, sleppt tvö og síðan innleitt þrjú. Þetta er ein samfella, þetta er stefna, þetta er markmið. Þetta er það sem Evrópusambandið sér til framtíðar. Með því erum við að taka upp hugmyndafræði Evrópusambandsins.