149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég ætla að grípa boltann á lofti þar sem hann skildi við hann. Nú eru uppi kenningar, einkanlega bornar fram af fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni, að í þessu máli séu það sem hann kallar prinsipp, grundvallarsjónarmið eða grundvallarreglur, sem séu hin sömu og eru uppi þegar ræðir um inngöngu með fullri aðild að Evrópusambandinu.

Þetta þýðir að samþykkt þessa orkupakka ryður brautina fyrir þá sem þangað vilja fara. Það eru nokkrir flokkar hér á Alþingi, einkanlega tveir, sem virðast hafa það einna helst á sinni stefnuskrá að Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Ég vissi ekki betur þangað til fyrir skemmstu en að þeir flokkar sem mynda meiri hlutann í ríkisstjórninni væru ekki á því að Ísland ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Nú kemur hér marktækur maður, Þorsteinn Pálsson, sem upplýsir um það í grein á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar 28. maí sl. að þarna sé nánast verið að malbika leiðina inn í Evrópusambandið. Tekur hv. þingmaður undir þessar kenningar Þorsteins Pálssonar?