149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi held ég að það sé rétt varðandi tveggja stoða kerfið sem við höfum sætt okkur við í töluvert langan tíma að það sé vegið að því með þessari útfærslu. Það kemur líka ágætlega fram í greinargerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, er ágætlega listað upp þar, hvert hlutverk ACER er á móti því hlutverki sem ESA mun hafa í þessu. Þó svo að ESA geti haft skoðanir á hlutunum er frumkvæðið hjá ACER í þessu öllu saman.

Ég velti því fyrir mér, hv. þingmaður, hvers vegna það er enginn munur á t.d. Sjálfstæðisflokki og Viðreisn í þessu máli. Getur verið að sá flokkur sé að þróast í þá átt sem fyrrverandi formaður, Þorsteinn Pálsson taldi hann ætti að þróast í? Mér finnst vera fleiri og fleiri mál, fleiri og fleiri yfirlýsingar sem koma frá þingmönnum þessa gamla Sjálfstæðisflokks í þá veru að við eigum að deila fullveldi okkar meira með Evrópusambandinu. Kannski þeir séu kalla á það að þeirra fyrrum formaður komi til baka og þessir flokkar sameinist um það að halda áfram að bíta af fullveldinu okkar.

Það er líka forvitnilegt, virðulegur forseti, að sjá umpólun Framsóknarflokksins í þessu máli. Ég man þá tíð að þar hefði ekki verið á það hlustað að hleypa svona máli áfram. Nú lyppast menn niður.

Virðulegi forseti. Það sem er að gerast í þessu máli er að við erum að deila umsýslu. Við erum að deila með Evrópusambandinu ákveðinni stjórnun á því hvernig við sýslum með okkar auðlindir ef við innleiðum þetta. Er það sú stefna sem við viljum innleiða hér á Íslandi? Er sú orkustefna sem við viljum taka upp orkustefna Evrópusambandsins?