149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á athyglisvert mál sem ég rakst á á Vísindavef háskólans þar sem fjallað er um það ef íslensk stjórnvöld myndu selja rafmagn um sæstreng til Evrópu, hvort þau mættu þá hafa aðra gjaldskrá hér heima fyrir einstaklinga og fyrirtæki en þá í Evrópu. Við höfum einmitt fengið fréttir af því að Landsvirkjun hefur áhuga á því að selja orku um sæstreng til Bretlands og tengjast þannig hinum sameiginlega orkumarkaði og innleiðing þessarar tilskipunar, þriðju orkutilskipunarinnar, er leið í því. Við höfum fengið fréttir af því að sæstrengur sé mikið tækifæri og annað slíkt og þetta hefur m.a. komið frá Landsvirkjun.

Annað í þessu er að Landsvirkjun er eins og aðrir aðilar sem starfa á íslenskum raforkumarkaði bundin af samkeppnislögum og t.d. meginreglunum um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og samráði. Löggjafinn gerir því í raun og veru ráð fyrir því að lögmál markaðarins ráði verðlagningu á raforku með þeim undantekningum að í samræmi við lög um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði er raforka sem notuð er til húshitunar niðurgreidd í samræmi við efni og skilyrði laganna. Samkvæmt lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku er kostnaður vegna dreifingar til almennra notenda á dreifbyggðum svæðum niðurgreiddur í samræmi við efni laganna.

Í sambandi við hugsanlega sölu á raforku um sæstreng má geta þess að hlutlægar efnahagsforsendur, svo sem orkutap við flutninginn í gegnum sæstrenginn og kostnaður við að setja upp mannvirkið hér heima og síðan tengingin við sæstrenginn, geta leitt til mismunandi verðs til íslenskra neytenda og neytenda í öðrum EES-ríkjum, þ.e. Evrópusambandið hefur áhuga á að kaupa raforkuna héðan ef og þegar sæstrengur kemur og þá verður verðið ekki það sama og á Íslandi. Hins vegar gæti þá íslenska ríkið, t.d. á pólitískum forsendum, viljað setja reglur um hámarksverð til íslenskra neytenda.

Það vekur hins vegar spurningar, herra forseti, um hvað það þýði í ljósi skuldbindinga ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Þær reglur sem við höfum innleitt, orkutilskipanir eitt og tvö og svo orkutilskipun þrjú sem er til umræðu, eru innleiddar í EES-samninginn og taka því þegar til íslenska ríkisins þrátt fyrir möguleika Íslendinga til að versla með raforku við önnur EES-ríki, þó að þeir séu nú þegar takmarkaðir eins og við þekkjum. Almennt má geta þess að Evrópusamruninn hefur lengi haft metnað til að byggja hagsæld aðildarríkjanna á samvinnu í orkumálum, einu markaðssvæði.

Það er sem sagt mjög mikilvægt mál fyrir Evrópusambandið að haga raforkumálum sínum þannig en þau hafa verið í ólestri í t.d. Austur-Evrópu og þá skiptir markaðsvæðingin mjög miklu máli og að Íslendingar verði þátttakendur í því, eins og við höfum rakið og ég hef rakið í ræðu. Við skiptum Evrópusambandið miklu máli þegar kemur að þessu sameiginlega markaðsmáli.

Í dag eru bundnar vonir við að sameiginlegur markaður með rafmagn auki skilvirkni í dreifingu og afgreiðsluöryggi og styrki samkeppnishæfni (Forseti hringir.) Evrópusambandsins.

Ég sé að tíminn líður hratt. Ég er rétt byrjaður með hugleiðingar mínar og ræðu, herra forseti, þannig að ég verð að biðja um að fá að vera settur aftur á mælendaskrá og held þá áfram.