149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir áhyggjur hans af því að hér muni rafmagnsverð til heimila og fyrirtækja í landinu hækka við innleiðingu þessarar tilskipunar. Við sjáum bara það sem hefur gerst í þeim efnum og ég hef rakið það áður að raforkuverð hefur hækkað til heimila. Svokallaðir sérsamningar voru t.d. hreinlega bannaðir með orkutilskipun eitt. Það voru heimili á svokölluðum köldum svæðum. Það voru fyrirtæki sem notuðu orku á næturnar eins og bakarameistarar sem dæmi. Þetta hefur því haft margvísleg áhrif.

Það er í raun og veru ámælisvert hvernig sumir hv. þingmenn og stuðningsmenn þessara innleiðinga hafa afvegaleitt umræðuna. Hv. þingmaður vitnaði t.d. í blaðagreinar sem þingmenn hafa skrifað og ég sá t.d. blaðagrein eftir hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þar sem hún talar um aukna neytendavernd o.s.frv. og lægra raforkuverð. En það er ekki rétt. Það er ekki rétt að raforkuverð hafi lækkað til heimila og fyrirtækja í landinu við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Það verður að gera þá kröfu til hv. þingmanna að þeir fari með rétt mál. Það er ámælisvert hvernig þessum áróðri hefur verið dreift víða. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi, maður sér það t.d. bara á netmiðlunum, að þetta er alltaf sami textinn en mismunandi nöfn undir textanum þar sem er verið að fjalla um orkupakkann. Þetta er ákveðinn áróður til að styðja við hann. (Forseti hringir.) Það er ámælisvert, hv. þingmaður, hvernig hefur verið staðið að umræðunni um þetta og sérstaklega þegar kemur að raforkuverði til heimila og fyrirtækja.