149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum að vissulega er margt sem vantar í þessa umræðu og mikilvægt að allir þessir þættir séu á yfirborðinu þegar við ræðum svona mikilvægt mál. Ég tek undir með hv. þingmanni að það getur vel verið að það verði hagur fyrir Ísland í framtíðinni að selja raforku í gegnum sæstreng. En þá legg ég ríka áherslu á að við eigum að gera það á okkar forsendum. Við eigum ekki að undirgangast það að Evrópusambandið stjórni verðinu og magninu af orkunni sem við seljum. Það er algerlega fráleitt að stjórnmálamenn skuli yfir höfuð leggja það til. Við eigum að gera þetta á okkar eigin forsendum og það er langaffarasælast fyrir þjóðfélagið.

Svo ég komi aðeins aftur inn á það sem hv. þingmaður nefndi réttilega, þann ranga málflutning sem hefur verið viðhafður af stjórnarliðum og þeim sem fylgja þessu máli og innleiðingu tilskipunarinnar. Það er eiginlega búið að snúa þessu svolítið við. Það er verið að saka okkur í Miðflokknum um að fara með rangt mál og misskilja og afvegaleiða umræðuna, á sama tíma og við sjáum það svart á hvítu, við erum búnir að sýna fram á það með gögnum, að málflutningur stjórnarliða og þeirra sem eru fylgjandi málinu er rangur þegar kemur að raforkuverði til heimila og fyrirtækja í landinu. Það er mjög ámælisvert vegna þess að þetta er sá þáttur sem skiptir almenning auðvitað mestu máli og það sem hann hefur mestar áhyggjur af í tengslum við þetta mál, þ.e. kemur rafmagnsreikningurinn minn til með að hækka? Það er það sem fólk er fyrst og fremst að hugsa um.