149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég verð að segja að auðvitað, og þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, á að horfa til reynslunnar af þessum orkupökkum, orkupakka eitt og orkupakka tvö, þegar við förum að ræða orkupakka þrjú. Það er það sem skiptir öllu máli, hvort þetta hafi orðið okkur til góðs. Við höfum sýnt fram á fjölmörg dæmi þess að svo er ekki.

Uppskipting orkufyrirtækjanna var fyrsta skrefið. Hvaða afleiðingar hafði það? Horfum til Suðurnesja. Þar var og er stórt fyrirtæki í orkuvinnslu sem áður hét Hitaveita Suðurnesja en heitir núna HS Orka og HS Veitur. Þar er búið að selja orkuvinnsluhlutann til einkaaðila. Þar er búið að selja 34% hlutans í HS Veitum, sem er dreifingarfyrirtæki. Einkaaðilar eru komnir inn í þetta fyrirtæki, sem almenningur hefur verið mjög ósáttur við. Íbúar á Suðurnesjum eru mjög ósáttir við það. Sveitarstjórnarmenn, Sjálfstæðisflokkurinn í meiri hluta á þeim tíma, lofuðu því að fyrirtækið yrði ekki selt, aðeins hluti þess. Árið 2007 selja þeir hluta af fyrirtækinu og segja við almenning að ekki standi til að selja allan hlutinn, hann verði áfram í eigu almennings eða íbúanna. Árið 2009, einungis tveimur árum síðar, selja þeir allan hlutinn. Það er erlendur aðili frá Kanada sem kaupir hann.

Að sjálfsögðu hræða sporin í þeim efnum. Þarna höfum við kristaltært dæmi um slæma reynslu af þessum orkupökkum. Síðan er það náttúrlega hækkun á raforkuverði til heimila og fyrirtækja. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega hefur garðyrkjan orðið fyrir skakkaföllum vegna þessa, bakarameistarar o.s.frv. Það á því að horfa á reynsluna af orkupökkunum þegar kemur að því að innleiða orkupakka númer þrjú. Reynslan er slæm og þess vegna eigum við ekki að innleiða þennan orkupakka. (Forseti hringir.) Það er ósköp einfalt.