149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á að það var bara í gær á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ sem Reykjanesbær, þ.e. meiri hlutinn, ákvað að falla frá forkaupsrétti á 15% hlut í HS Veitum sem einkaaðili hyggst nú selja. Er rétt að taka fram að fulltrúi Miðflokksins lagðist gegn þeirri tillögu og stóð ekki með meiri hlutanum í þeim efnum og var eini fulltrúinn sem greiddi atkvæði gegn því.

Af því að hv. þingmaður nefndi það dæmi er óhætt að minnast þess að þetta einkafyrirtæki á í dag 34% hlut í HS Veitum, keypti þann hlut fyrir fimm árum á 3 milljarða og ætlar nú að selja 15% hlut af þeim 34% á 3 milljarða. Á fimm árum hefur sá einkaaðili hagnast sem nemur 106%. Þið sjáið að það er eftir miklu að slægjast að komast í orkugeirann og engin furða að þessir aðilar skuli rísa upp (Forseti hringir.) á afturlappirnar og mótmæla málflutningi Miðflokksins. Þeir hræðast það að þessi (Forseti hringir.) orkutilskipun verði ekki að veruleika og þá (Forseti hringir.) eru áform þeirra hrunin að sama skapi.