149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort neytendaverndin felist í því að fólk geti skipt um fyrirtæki og allir séu með jafn háa prísa á því sem þeir eru að bjóða, ef ég get sagt sem svo. Við höfum farið í samtal við nokkra þingmenn ríkisstjórnarinnar og þeir hafa allir verið á því að það beri að innleiða orkupakka þrjú. Ég er einhvern veginn komin á þann stað að ég tel að þingmenn séu komnir í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar. Ég veit til þess að gerð var könnun sem hefur ekki verið birt sem styður þá fullyrðingu mína. Ég held því fram að það sé alla vega í þágu þjóðarinnar að ræða þetta mál hér. Mér finnst merkilegt hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa skipt um skoðun, þ.e. þingmenn flokkanna. Ef við tölum um Sjálfstæðisflokkinn þá var birt í aðdraganda kosninga 2017, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Þar með vil ég halda því fram að kjósendur hafi búist við því að flokkurinn myndi standa við þá áherslu en mér sýnist það ekki vera núna.

Ef við förum yfir það sem Framsóknarflokkurinn valdi að setja á oddinn, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn hafnar öllum hugmyndum um útflutning á raforku um sæstreng.“

Þetta kemur á óvart þar sem við höfum heyrt þær nýlegu fréttir að Atlantic SuperConnection heldur því fram að það sé komið með fjármagn til að leggja þennan sæstreng. Ég hef litið á það þannig að verið sé að leggja sæstreng til Íslands. Með þeim orðum er ég að segja að það sé þá ekki á okkar forræði. En ég vil gjarnan að við leggjum streng frá Íslandi sem væri þá að frumkvæði okkar, á forsendum okkar.

Þetta liggur því svona fyrir mér, mér finnst þingmenn hafa skipt um skoðun.

Ef við förum yfir í Vinstri græn eru þau sérstaklega á móti sæstreng fyrir kosningar. Vinstri græn segjast vilja hætta sölu á orku til stóriðjunnar til að koma í veg fyrir fleiri virkjanir þegar orkuþörf landsins eykst.

Þetta er mjög svo merkilegt vegna þess að það kom ekki nema ein umsögn frá náttúruverndarsinnum. Það virðast allir vera hljóðir og enginn segir nokkurn skapaðan hlut um það hvaða áhrif þetta gæti haft á náttúruna. Það er sérstakt þegar um Vinstri græn er að ræða. Þau hafa sannarlega skipt um skoðun.

En það eru þessir vindmyllugarðar sem eru fyrirhugaðir. Það er einhvern veginn algjört tómarúm innan stjórnarliðsins varðandi þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnarflokkarnir hafi bara gengið gegn því sem þeir sögðu fyrir kosningar og svo á að setja þennan orkupakka þrjú í gegnum þingið á mjög skömmum tíma.

Það minnir mig á það þegar persónuverndin var sett í gegn á síðasta þingi. Það tók 13 daga. Þetta var grundvallarbreyting á persónuverndarmálum fyrir alla landsmenn. Þar komu margar umsagnir og við fengum marga fræðimenn fyrir nefndina, allsherjar- og menntamálanefnd, sem töluðu gegn því og sögðu að við værum jafnvel að framselja ríkisvald sem væri ekki í anda þess sem við vildum standa fyrir.

Það er sótt að okkur á allan máta og smátt og smátt verið að koma okkur í Evrópusambandið. Ég óttast að við séum á þeirri leið og mér hugnast það alls ekki nógu vel.