149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson segir. Um persónuverndarmálið, af því ég kafaði aðeins í það, fengum við margar umsagnir sem voru frekar neikvæðar. Það sneri einna helst að kostnaðinum við að innleiða persónuverndarlöggjöfina. Ég man sérstaklega að sveitarfélögin töldu sig varla geta staðið undir þeim kostnaði. Annar punktur var þessi gríðarháu sektarákvæði. Þetta er allt mjög kunnuglegt vegna þess að hér verður það þannig að ef við förum ekki að vilja Evrópusambandsins, eða ACER í þessu tilfelli, verður hægt að beita gríðarlegum sektum eins og ég les málið.