149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt. Það er eiginlega svolítið merkilegt að við séum að tala um neytendavernd og, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson ræddi í fyrra andsvari, þá eru verkalýðsfélög, ASÍ, VR og jafnvel fleiri hér á landi, á móti innleiðingunni. Það er væntanlega vegna þess að þessir aðilar sjá fyrir sér að orkuverð muni hækka. Þeir taka undir álit verkalýðsfélaganna í Noregi sem voru á móti orkupakka þrjú þar í landi og þess vegna er nú þessi styr þar.

Það er líka stórmerkilegt að 70% umsagna hafi verið neikvæð gagnvart innleiðingu orkupakka þrjú og á það er ekki hlustað. Það er heldur ekki verið að birta niðurstöður þessarar skoðanakönnunar. Þetta er einhvern veginn allt að fara í sömu áttina. Málið á bara að klárast hratt og örugglega.